Halldór Benjamínsson á Laugarvatni.

“Ég sótti einusinni námskeið hjá Jakob í Gufuhlíð sem hann hélt hérna í Héraðsskólanum eitthvert vorið,, sagði Halldór Benjamínsson er blm. beitti hann örlitlum þrýstingi að fá að kíkja aðeins í skúrinn hjá honum.
Báðir þekktum við Jakob Helgason og vissum að hann var bæði stórtækur garðyrkjubóndi í Reykholti sem og í grunninn góður bólstrari.
Hafði hann í byrjun sótt sér einhverjar aukatekjur við húsgagnabólstrun til hliðar og meðfram garðyrkjunni.
Auðséð er á föndri Halldórs að hann hefur lært heilmikið af Kobba í sinni tíð.

Halldóri er margt til lista lagt og er blm. meðal annars starsýnt á garðhýsi út í garði hjá honum.
“Þetta hús byrjaði nú sem lítil skógarplanta hér í garðinum hjá okkur ,, sagði Halldór og lýsti öllu ferlinu við þá ræktun og hvernig hann sagaði svo niður og flatti út fullvaxið tréð og byggði úr því þetta skemmtilega garðhýsi.

Yfir kaffibolla og trakteringum að hætti höfðingja var svo rifjuð upp sú fyrri tíð er Halldór ók rútubílum fyrir Ólaf Ketilsson og síðar SBS eftir sameiningu þriggja sérleyfa í fólksflutningum hér á Suðurlandi.
Nú er hann formaður eldri heiðursborgara í Laugardal og hefur af því talsverða umsýslu ásamt og ýmiskonar föndri, enda margreyndur og húsasmiður að mennt.


