Hrunamenn hafna samstarfi

Hafa sagt upp samstarfi við nágrannasveitarfélög í umhverfis og tæknimálum uppsveita.

Umhverfis og tæknisvið uppsveita er nýlega flutt í þetta nýja og glæsilega hús að Laugarvatni.

Hættir og farnir úr byggðasamlaginu.

Afstaða Hrunamanna liggur fyrir í fundargerð sveitarstjórnar frá 8. maí s.l. en þar segir m.a í niðurlagi fundargerðar.:

,,Sveitarstjórn Hrunamannahrepps er því nauðugur einn kostur að segja upp aðild okkar að byggðasamlaginu og hefja nú þegar undirbúning að því að Hrunamannahreppur taki málaflokkinn alveg yfir. Sveitarstjóra og oddvita falið að vinna málið áfram”.

Ástæða þessa er sögð vera bókanir sveitastjórna Skeiða og Gnúpverjahrepps, Bláskógabyggðar og Grímsnes og Grafningshrepps frá 27.mars 2025. og jafnframt lýst furðu yfir neikvæðri afstöðu nágrannasveitarfélaga til þeirrar sjálfsögðu óskar Hrunamannahrepps um að þar verði starfrækt skipulagsnefnd skipuð aðilum úr Hrunamannahreppi.

Þá segir m.a einnig: ,,Þegar nágrannar okkar og vinir tengja saman þá sjálfsögðu ósk sveitarstjórnar Hrunamannahrepps um að hér verði starfrækt okkar eigin skipulagsnefnd við rekstur embættisins þá undrumst við það og hörmum að slíkt sé niðurstaða félaga okkar.

Það að skipulagsnefnd verði starfrækt hér í Hrunamannahreppi skaðar í engu önnur sveitarfélög og með engu á það að hafa áhrif á þátttöku okkar í samstarfi um skipulags og byggingarfulltrúa”.

Til þess að fá sjónarmið frá einhverjum úr hópi nefndarmanna U.T.U. náðist í Harald Þór Jónsson oddvita í Skeiða og Gnúpverjahreppi:

Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða og Gnúpverjahrepps.

,,Ég skipa sæti í þessari ágætu skipulagsnefnd fyrir mitt sveitarfélag og þannig er eins og stofnsamningur segir til um í þessu byggðasamlagi að hvert sveitarfélag á þar einn fulltrúa.

Fyrir mitt leiti lýt ég svo á að þetta fyrirkomulag hafi verið afskaplega gott og nefndin þessi sé mesti ávinningurinn og hjartað í þessari starfsemi.

Þarna hefur orðið til sameiginlegur vettvangur til að miðla þekkingu og reynslu milli manna og milli sveitarfélaga í skipulags og byggingamálum sem er algerlega ómetanlegt.

Eins og var t.d. hjá okkur er allir nefndarmenn komu nýir inn í sveitarstjórn var ómetanlegt að detta inn í þennan starfsvettvang með mönnum sem voru bólgnir af reynslu og þekkingu og eiga þar samtal og samvinnu við úrlausn mála.

Ef svo hefði ekki verið hefði maður verið með miklu þrengri sýn og augljóslega mun meiri vanþekkingu við afgreiðslu mála.

Þetta er flottasta samstarfsverkefni sem við tökum þátt í

Svo er skipulagsembættið sjálft mjög flott og skipað 9 manns sem starfar ötullega að því að gera hlutina sem best úr garði. Má þar nefna aukna sjálfvirkni, með innleiðingu gerfigreindar sem mun stuðla að hagræðingu og minni kostnaði. Bæði fyrir sveitarfélögin og almenna notendur. Þetta er að mínu mati flottasta samstarfsverkefni sem við eigum þátt í og af samtölum mínum við sveitarstjórnarfólk er víðsvegar litið til okkar með öfundaraugum með þetta fyrirkomulag.

Ekki alveg nýtt af nálinni.

Þessi umræða Hrunamanna varðandi þetta hófst fyrir u.þ.b. ári síðan. Að fara fram á að hafa eigin nefnd fyrir sín mál en halda sér inni með þátttöku í skrifstofunni var bara alls ekki meirihluti fyrir. Einhvern veginn er það bara þannig með þessi byggðasamlög að annað hvort ert þú bara inni í þeim eða ekki. Ef að öll sveitarfélögin í þessu samstarfi ætluðu sér að hafa eigin nefndir og jafnmarga fundi með skipulagsfulltrúum í kringum það og missa svo af allri samhæfingu og samráði innan nefndar, væri að mínu mati farið mikils á mis.

Samtal látið lönd og leið.

,,Annars var það svo að Árni Eiríksson oddviti Flóahrepps hafði verið hvatamaður að því að boða okkur alla oddvita og sveitarstjóra til óformlegs fundar næsta miðvikudag til að eiga samtal sem hafi í rauninni alltaf vantað og Hrunamenn ekki átt frumkvæði að.

En eftir þessu er nokkuð ljóst að í millitíðinni hafi þessi ákvörðun verið tekin og áhugi fyrir frekara samtali líklegast talið óþarft.

Að sjálfsögðu finnst mér leitt að Hrunamenn taki þá ákvörðun að kljúfa sig út úr þessu samstarfi en þetta er auðvitað bara þeirra val og okkur ber að taka því.

Framtíðin björt.

Þetta mun ekki setja embættið neitt á hliðina. Hlutur hreppamanna á síðasta ári var nálægt 11% þannig að lífið heldur áfram kanski með lítilsháttar hagræðingu. Alveg má þó gera ráð fyrir að með auknum verkefnum á svæðinu verði fljótt að fyllast upp í skarðið.”segir Haraldur að lokum,” og er afar bjartsýnn á samstarfið um Umhverfis og tæknisvið uppsveita og fullviss um að það eigi eftir að dafna áfram til góðs”.

Follow Us

Advertisement