Brimbrettamenn í sáttarhug

,,Þessi samskipti milli brimbrettafólks og ráðamanna hér í Þorlákshöfn voru bara alls ekki á góðum stað. Fór að mínu frumkvæði í að vinna að sáttum. Er leiddi svo til þess að ég lenti inni í og er orðinn hluti af nýrri stjórn”. segir Sigurþór Einar Halldórsson varðandi stöðu mála í umdeildri landfyllingu tengdri hafnargerð í Þorlákshöfn.

Sigurþór Einar Halldórsson nýr forsvarsmaður fyrir brimbrettafólk

,,Sjálfur var ég utanvið brimbrettafélagið og horfði meira á þetta úr fjarlægð þangað til ég var fenginn til liðs við félagið nú nýverið. Það þarf oft ekki marga til að skapa stemningu fyrir vondum múgæsingi sem oft verður til af röngum upplýsingum og allskonar misskilningi út frá því.

Nú hef ég fengið ágæta samstöðu meðal hópsins um að breyta um kúrs. Fara leið sátta og samvinnu. Hætta mótmælum, kærum og eiga í uppbyggilegum samtölum og samskiptum við heimafólk hér. M.a með góðri umgengni um og við planið góða við útsýnispallinn. Þar sem við höfum jafnframt hvatt til þess að fólk leggi svæðið ekki langtímum undir bíla sína er torveldi öðrum aðgengi”.

Þakkarskuld frá liðinni tíð

,,Það eru orðin allmörg ár síðan ég fyrstur manna byrjaði að surfa hér í öldunni í Þorlákshöfn. Allir tóku mér vel og stend ég í þakkarskuld við fjölmarga hér. Vil ég sérstaklega geta um forsvarsmenn Jarðefnaiðnaðar er lögðu mikið á sig við að hjálpa og greiða götur okkar við að grafa niður kappla og koma upp með okkur myndavélum og fl. til að fylgjast með öldunni. Aldrei var tekin króna fyrir nokkurt viðvik. Sama var um netfyrirtækið Toppnet en eigandi þess Róbert Dan lagði okkur til margan snúninginn og bætti svo við þeirri rausn að leggja okkur til og koma upp ókeypis netsambandi í heil tvö ár.

Ég hef sjálfur alið manninn í smærri samfélögum úti á landi og þekki einmitt þessi viðhorf hjálpsemi og samstöðu um að taka vel á móti og greiða götu aðkomufólks. Þá tilfinningu þekki ég vel og finn sterklega fyrir hér nú, eins og fyrrum”.

Gott samstarf við ráðamenn

,,Ég hef einungis mætt yndislegu og lausnarmiðuðu viðmóti í samskiptum mínum við ráðamenn hér í Þorlákshöfn. Kom sjálfur auðvitað ekkert að þessu fyrr en ferlið var komið í þann farveg að byrjað var að moka. Við höfum samt setið yfir því að horfa með jákvæðum hug á sjónarmið hvers annars og unnið að lausnum. Svo er það auðvitað tíminn sem leiðir það best í ljós hver áhrifin af þessari framkvæmd verða. En ég hef alveg fengið að finna fyrir sterkum vilja til að huga að einhverjum mótvægisaðgerðum með okkur eftir því sem fram vindur og reynslan af landbreytingunum leiðir í ljós”.Segir hinn góðlegi og geðugi viðmælandi áður en hann smeygir á sig búnaðinum og dembir sér í brimrótið, í stórgrýttri fjörunni.

Hér er landfyllingin farin að taka á sig mynd. Svæðið er u.þ.b. einn hektari að stærð. Athafnasvæðinu býður aðkallandi hlutverk vegna stóraukinna umsvifa við vöruflutninga að og frá höfninni í Þorlákshöfn. Framkvæmdum við fyllinguna er ekki lokið, þótt búið sé að ramma inn útjaðar hennar.

Follow Us

Advertisement