
Rétt neðan við kirkjuna í Haukadal er þessi laug er sumir hafa nefnt Marteinslaug.
Hefur að öllum líkindum heitið Kúalaug
Þórey Jónasdóttir er lengst af bjó upp við sjálfan Geysi ásamt manni sínum Þóri Sigurðssyni var á skrafi við Níels Magnússon (frá Austurhlíð) skógræktarstjóra er blm. bar að garði.
Bárust þá meðal annars í tal efasemdir Þóreyar um réttnefni téðrar laugar.
Þá lýsti Níels furðu sinni yfir því að einhver sem enginn vissi hver væri, hefði átt frumkvæði að og valdið umtalsverðu raski, mokað drullu upp úr lauginni og raðað m.a. upp einhverjum frauðkubbum ætluðum fyrir göngustíg.
Hefði hann látið fjarlægja þá og setja voldugar tréfjalir í staðinn.
Þórey hafði vanist því á tali heimamanna að Marteinslaug ætti við aðra laug sem jafnframt var fjölsótt gufubað. Þar hefði verið heilmikill steinn með skál er helgaður hefði verið. Vildi hún þó endilega hafa þann fyrirvara að menn gefi sig fram um þessi mál ef þeir búi yfir frekari vitneskju.

Þórey og Níels fara yfir stöðuna með afar upplýsandi samtali og vangaveltum um afdrif Marteinslaugar.
Eitthvað má nú gúggla og á timarit.is má finna m.a. texta úr læknablaðinu 2005/91 þar sem vitnað er í ferðabók Eggerts og Bjarna:
,,Baðlaug, endur fyrir löngu helguð heilögum Marteini frá Tour. Mikið notuð og í miklum metum. Sú saga er sögð um Marteinslaug þessa, að hún hafi með yfirnáttúrulegum hætti sprottið upp úr hörðum kletti og fallið síðan gegnum íhvolfa rennu ofan á klettinum niður í baðþróna. Þá er sagt að vatnið sé gætt lækningamætti.
Laugin var tempruð með köldu vatni úr Kaldalæk. Laugin spilltist á 19. öld og er horfin í lok aldarinnar, en kletturinn íhvolfi sem stóð á lækjarbakkanum notaður sem þvottaker.
1927 var friðað ,,Steinker fornt við Marteinslaug”. Nokkru seinna var reistur skúr yfir Marteinshver (gufubað) sem var rifinn fyrir skömmu og kom þá steinkerið í ljós á lækjarbakkanum. Það var flutt að annarri laug skammt frá sem sumir álíta Marteinslaug”.
Svo mörg voru þau orð og staðfestir auðvitað með öllu að þarna þarf talsvert að leiðrétta. Og þá allra fyrst að rétta nú við hinn heilaga stein og veita honum kanski verðugri sess en þann að liggja á hvolfi í drullu á barmi Kúalaugar í Haukadal.

Mynd (fengin af netinu úr læknablaðinu) af hinum helga og friðlýsta steini er líklegast liggur nú á hvolfi í drullu við Kúalaug


