
Í byrjun ársins 1985 hófst útgáfa Fréttamolans. Það voru tveir ungir menn í Þorlákshöfn Þeir Einar Gíslason og Hjörleifur Brynjólfsson er stóðu að útgáfunni.
Lógó blaðsins
Erlingur Ævarr Jónsson skipstjóri og listamaður hannaði lógó blaðsins.
Það sýnir gömlu innsiglinguna í Þorlákshöfn. Við hana voru ljóskastarar sinn hvoru meginn í hafnarkjaftinum. Nafn Fréttamolans er látið standa í miðju á geislum þeirra beggja er lýsa hvor á móti öðrum.
Stutt söguágrip
Í fyrstu var megin efni blaðsins og efnistaka sótt í heimabyggð og afmarkaðist mest af Því sem þar bar hæst hverju sinni. Urðu menn þess fljótt varir að áhugi fyrir blaðinu var víðsvegar í sunnlenskum byggðum. Hafði fjölmargt fólk af suðurlandi sótt sér þar vertíðarvinnu bæði til sjós og
lands og reyndist því sólgið í fregnir eins og aflafréttir og margt fleira er um var að vera í verstöðinni góðu á þessum árum. Þetta varð til þess að útgáfan sótti í sig veðrið. Flutti fréttir af málefnum víðsvegar af Suðurlandi og stækkaði upplagið í 5200 tölublöð er best lét. Var þeim dreift inn á hvert heimili í Þorlákshöfn ,Hveragerði og allt dreifbýli Árnes og Rangárvallasýslu. Ásamt því að liggja frammi í verslunum og greiðasölum á Selfossi og víðar. Blöðin voru prentuð hjá Eyjaprenti í Vestmannaeyjum.
Þar sem útgáfa þessi hefur að geyma menningarverðmæti frá sögulegum tíma Þolákshafnar og víðsvegar úr héruðum suðurlands, töldum við rétt að geyma hér og opna fyrir aðgengilega linka af allri gömlu útgáfunni.
Endalok útgáfunnar gömlu
Er komið var fram á fimmta árið í útgáfunni stóðum við frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að hætta útgáfunni þótt vel gengi. Blaðið var vinsælt og víðlesið og auglýsingar bárust sjálfkrafa að, þannig að reksturinn gat verið með ágætum.
Eigendur og reksrtaraðilar er voru bara tveir í fullri vinnu við önnur verkefni, unnu að útgáfunni á kvöldin og nóttunni. Það gat auðvitað ekki gengið lengur.
Pistlahöfunda höfðum við nokkra er við stöndum í þakkarskuld við, er áttu stóran þátt Í að byggja undir og gefa útgáfunni lit bæði í alvöru og gamni. Vinnan við útgáfuna var gríðarleg fyrir tíma tölvutækninnar. Það þurfti að taka viðtöl, afla frétta, auglýsinga og sjá um innheimtu og pikka allt uppá blöð með gömlum ritvélum. Ljósmyndir voru teknar á svarthvítar filmuvélar og svo þurfti að loka sig af í myrkraherberginu og framkalla.
Að endingu þurfti allt að verða klárt til að fara um borð í Herjólf til afhendingar í prentsmiðjuna í Vestmannaeyjum.
Þar hófst svo önnur vinna við að pikka allt upp aftur af okkar blöðum setja upp og gera klárt fyrir prentun.
Framtíð Fréttamolans
Með því að stofna þessa vefútgáfu er hugmyndin að setja hér líka inn gamlar myndir og fleira skemmtilegt er fram líður. Eitthvað verður sett inn af efni sem okkur mun berast til birtingar auk þess að við munum sjálf stinga inn nútímafréttum af bæði fólki og málefnum.
Auglýsingar
Áhugasömum verður svo þegar fram líður gefið pláss til að koma á framfæri auglýsingum og styrktarlínum til að styðja við verkefnið .
